Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 31 . mál.


666. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



     Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur fram m.a.: „Tenging íslensku krónunnar við ECU er hins vegar ekki talin tímabær að sinni. Til að skapa nauðsynlegar forsendur fyrir því á fjármagns- og gjaldeyrismarkaði að unnt sé að tengja gengi krónunnar við ECU með trúverðugum hætti þurfa að koma til veigamiklar skipulagsbreytingar.“
     Þann 4. október 1991 er eftirfarandi haft eftir viðskiptaráðherra: „Ríkisstjórnin hefur ákveðið í samráði við Seðlabanka Íslands að hefja strax í haust undirbúning að því að tengja íslensku krónuna evrópsku mynteiningunni ECU. Er ráðgert að slík tenging fari fram á árinu 1993, enda hafi reynslan þá sýnt að hún fái staðist.“
     Það hefur því mátt skilja á hæstvirtum viðskiptaráðherra að hann ráðgeri að íslenska krónan tengist ECU þegar á árinu 1993.
     Í þeim greinargerðum, sem birtar hafa verið frá Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun, kemur fram að ekki er hægt að taka nokkra ákvörðun um það hvort slíkt sé skynsamlegt. Eftir viðtöl nefndarinnar við þessar stofnanir er enn ljósara að ekki er tímabært að kveða upp úr um hvort eða hvenær slík tenging á að fara fram. Þrátt fyrir þessar viðvaranir heldur viðskiptaráðherra áfram á sömu braut og það vakir í máli hans að ákvörðun um þetta verði tekin á árinu 1993.
     Minni hluti nefndarinnar telur allar slíkar ráðagerðir óábyrgt tal og vitnar í því sambandi til fyrrnefndra greinargerða.
     Í umræðum um málið 16. mars 1992 sagði viðskiptaráðherra Jón Sigurðsson eftirfarandi: „Þetta er eingöngu hugsað til þess að þingið sé að gefa alveg skýrt umboð til þess að ákveða slíkar breytingar, þótt þingið sé ekki þar með að ákveða þær.“


     Viðskiptaráðherra segir með þessu að það sé ekki hlutverk Alþingis að leggja blessun sína yfir slíka ákvörðun en það sé hins vegar rétt að Alþingi gefi ríkisstjórninni umboð til þess án þess að vita hvernig hún fari með það.
     Minni hluti nefndarinnar vill ekki gefa núverandi ríkisstjórn slíkt umboð og mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins í ljósi þeirrar túlkunar sem fram kemur í máli viðskiptaráðherra.
     Varðandi afstöðu okkar að öðru leyti vísum við til þeirra umræðna sem átt hafa sér stað í málinu.

Alþingi, 26. mars 1992.



Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Kristín Ástgeirsdóttir.


frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.